Dark Man X 1970–2021

Haukur Leifsson
7 min readApr 11, 2021

--

Fyrirsjáanlegur dauði Earl Simmons varð að veruleika 9. apríl en áralöng neysla fíkniefna náði að koma honum í snemmbúna gröf.

Daginn eftir dauða DMX spurði eiginkona mín sem hefur verið hluti af mínu lífi síðustu 20 ár hvort ég hafi ekki hlustað frekar mikið á DMX á sínum tíma. Því meira sem ég velti þessari spurningu fyrir mér, því meira gerði ég mér grein fyrir að DMX var miklu meiri hluti af mínu lífi og ákveðnum hluta í mínu lífi heldur en ég hafði gert mér grein fyrir.

Árið 1998 heyrði ég How´s it Goin´Down í Hvíta Tjaldinu hjá Ómari Friðleifs sem var vinsæll útvarpsþáttur á þessum tíma á Stjörnunni og þetta lag var eitt það allra besta sem ég hafði heyrt á því ári. Ómar hafði að sjálfsögðu tryggt sér eintak beint frá New York löngu áður en diskurinn skilaði sér í Japis. Biðin var löng en þegar diskurinn skilaði sér loksins var lítið annað spilað í bílnum mánuðina eftir.

Ég hef alltaf tengt fyrstu plötu DMX, It´s Dark and Hell is Hot við Hvíta Tjalds þáttinn hans Ómars en við Ómar áttum eftir að tengjast órjúfanlegum vinaböndum seinna eða allt þar til hann lést löngu fyrir aldur fram. Tónlist DMX minnir mig einnig á annan vin sem lét sig hverfa úr mínu lífi. Það var eitthvað við hráleikann og reiðina í orðum DMX sem áttu vel við táninga á þessum tíma sem voru einmana og utanvelta í lífinu. Ólíkt öðrum röppurum á þessum tíma að þá fór DMX aldrei í felur með tilfinningar sínar og á hátindi “jiggy” tímabilsins í hiphop menningu Bandaríkjanna að þá kom DMX með ferskleika inn á þann markað. DMX afrekaði einnig eitthvað sem enginn annar rappari hafði afrekað fyrir hans tíma. Hann gaf út tvær plötur árið 1998 sem báðar fóru beint í #1 á Billboard listanum og hann var fyrsti rapparinn sem fyrstu 3 plötur fóru beint í #1 á Billboard listanum.

Earl Simmons átti glataða ævi en á þessu ári lét hann samt orð falla í myndbandi í bullandi neyslu að ef hann færi núna að þá væri hann ánægður með lífsverk sitt.

Hörmuleg æska Earl Simmons er of algeng saga ungra blökkumanna í Bandaríkjunum en hann fæddist í Yonkers sem þá var eitt fátækasta hverfi New York borgar. Í félagslegum íbúðum í School Street Projects ólst hann upp meðal eiturlyfjasala, vændiskvenna og pissandi róna. Móðir hans var táningur þegar hún eignaðist hann og fékk enga hjálp við uppeldið, uppeldi sem einkenndist af vanþroska og fáfræði unglings. Earl var kennt um að samband móðir hans við föður hans endaði og var hann gróflega misnotaður af móðir sinni með daglegu ofbeldi. Eitt sinn lokaði hún hann í íbúðinni yfir heilt sumar og allt sumarið heyrði hann börn á sínum aldri leika sér fyrir utan blokkina en hann mátti ekki fara út úr herberginu sínu nema að fara á salerni. Engin ný leikföng var að fá og engin ný föt. Hann las hverja einustu bók sem hann fann, gerði alla heimavinnu sem hann gat aftur og vegna skorts á leikföngum lék hann sér að rennilásnum á peysunni sinni sem hann ímyndaði sér að væri slökkvibíll.

Like fuck it, you wanna be me? here’s what you do
Grow up neglected by both parents and still pull through
You gots to come up fucked up, get treated like shit
Then have your mother’s new boyfriend smack you like a bitch turn into a killer

Eins og öll börn sem eru misnotuð eða alast upp með ofbeldi að þá byrjuðu erfiðleikar að hrjá hann utan heimilis. Hann var sífellt reiður og og þegar hann var 11 ára var honum vísað úr grunnskóla vegna hegðunar. Móðir hans gafst upp á honum og hann þvældist á milli stofnanna. Móðir hans skutlaði honum 11 ára í stofnun að nafni Children Villages sem var þá stofnun sem sinnti skólastarfi vandræðaunglinga en var líka einskonar ungmennafangelsi (e. juvinale home) í þeim tilgangi að þau væru að fara að líta þarna inn og skoða álitlegan skóla. Það sem hann vissi ekki var að hann yrði skilinn eftir gegn sínum vilja. Earl hefur lýst sjálfur að á því augnabliki að þá byrjaði hann að birgja allt inni, alla reiði og allar tilfinningar og á því augnabliki fæddist annar persónuleiki sem tók stjórnina. Geðhvarfasýki sem átti eftir að hrjá hann alla ævi var fædd.

I got quite a few sisters, I was the only boy
But being with my dog, was my only joy
Like a kid with a new toy, I forgot about the grime
Escaped the misery, didn’t think about the crime
Lost all track of time, was in another world
Everybody knew Earl, but there was another Earl
Lighter side of the dark, fight in the park but wouldn’t wanna
Stayed and fought, but when they jumped me, became a good runner
One by one they all went under, so I had the last laugh
They all thought it was a joke; I had the last laugh

Á endanum var vistin í Children Villages góð og hann sinnti hann námi vel og kynntist tónlist en eins og margir unglingar í hans sporum átti hann erfitt með að fóta sig utan stofnana. Hann þvældist á götunni og kynntist Ready Ron sem var aðeins eldri en hann. Ready Ron hafði orðspor á götunni sem góður rappari og Earl leit upp til hans. Ready Ron gaf honum krakk í fyrsta skipti þegar hann var 14 ára en frásögn Earl um þetta atvik er á þá leið að þetta hafi átt að vera sakleysisleg jóna en þetta var það sem kallast wooly en það er jóna sem er viðbætt með kókaíni eða krakki. Eftir það varð neyslan óstöðvandi til dauðadags. Það skal þó tekið fram að frásögn Ready Rons er á aðra leið en engu að síður er þetta atvik sem Earl hefur tjáð sig mikið um í fjölmiðlum og kenndi hann Ron um að hafa ánetjast fíkniefnum.

Þessi pistill á samt ekki að setja DMX á hetjustall. Maðurinn var nauðgari, glæpamaður, ræningi, hlutgerði kvenfólk, sinnti ekki börnunum sínum 15 og var algjörlega óstöðvandi fíkill með allri þeirri ringulreið sem því fylgir. DMX var ekki góður maður en saga hans er engu að síður saga margra blökkumanna í Bandaríkjunum sem þarf að ræða til að skilja hvaðan DMX kom og hversu rotinn veruleiki margra blökkumanna í Bandaríkjunum er.

I’m ready to meet him
’Cause where I’m livin’ ain’t right, black hate white
White hate black, it’s right back to the same fight

Skv Livingston og fleirum (2006) hefur fátækt, brottfall úr skólum, atvinnuleysi, foreldraleysi og stofnanavist hrjáð unga blökkumenn í Bandaríkjunum. Milljónir blökkumanna í Bandaríkjunum fá ekki sömu tækifæri og hvítir menn í Bandaríkjunum og er bandarískt samfélag fullt af hindrunum sem er þess valdandi að þeir eiga erfiðara með að upplifa árangur í sínu lífi og eru sviptir dign og velsæmi (Livingston o.fl, 2006).

Bandarísk stjórnsýsla hefur lengi álitið unga blökkumann sem óvin sinn. Á sjötta áratug síðustu aldar fóru stærstu borgir Bandaríkjanna að breiða úr sér og ný hverfi voru á hverju strái. Það var snemma í þéttbýlismyndun Bandaríkjanna sem að samfélagsleg vandamál eins og fátækt og glæpir fóru að stinga upp kollinum en frá því að áfengisbannið endaði hafði Bandaríkin upplifað ákveðna friðsæld hvað varðar tíðni ofbeldisglæpa miðað við bannárin. Kynþáttahyggja og þynþáttafordómar urðu fylgifiskur ógnvænlegar þéttbýlismyndunar í bandarískum borgum og við enda sjöunda áratug síðustu aldar voru uppþot í hverfum blökkumanna orðin frekar algeng. Uppþotin voru í umhverfi þar sem atvinnuleysi blökkumanna var mikið og voru iðulega sprottin upp í kjölfar ofbeldis af hendi lögreglu og varð fjölmiðlaumfjöllun sem einkenndist af æsifréttamennsku á þá leið að bandarísk stjórnsýsla sá unga blökkumenn sem ógn við alríkið (Hinton, 2016).

Lyndon Johnson forseti Bandaríkjanna var ansi herskár á þessum árum en árið 1965 kallaði hann eftir “war on crime”. Það sem áður hefði átt að vera aðstoð til fátækra í formi Great Society átaksins varð að stórefldri löggæslu í fátækrahverfum sem einkenndist af kynþáttabundnu ofbeldi af hálfu lögreglunnar. Árið 1968 skrifaði Johnson undir Omnibus Crime Control og Safe Streets Act og veitti það alríkislögreglu rúmar heimildir innan löggæslu sem bitnaði á réttindum borgara og var þess valdandi að átak í formi fátækraaðstoðar runnu undir löggæslu. Árið 1974 var síðan Juvinile Justice and Delinquency Prevention act samþykkt en það varð þess valdandi að unglingar í fátækt fengu stimpilinn sem tilvonandi glæpamenn (e. potentially criminal). Í kjölfar þess varð kynþáttaaðskilnaður í stjórnsýslunni í formi þess að hvítir unglingar úr millistétt eða úthverfum voru stimpluð sem börn í vanda (e. children in trouble) eða strokubörn (e. runaways) á meðan svartir unglingar í blökkumannahverfum fengu stöðu glæpamanna og var dælt inn í fangelsi og meðferðarheimili fyrir unglina sem voru öll einkarekin(Hinton, 2016).

Þetta er einungis agnar smátt brot af þeirri sögu sem er þess valdandi að blökkufólk eins og Earl Simmons er fætt inn í aðstæður sem það hefur litla sem enga stjórn á. Glæpavæðing svarta ungmenna er kerfisbundið vandamál Bandaríkjanna sem á sér rætur í kynþáttafordómum stjórnsýslunnar sem veldur því að börn og unglingar fara snemma á glæpabraut, ánetjast eiturlyfjum og komast aldrei út úr fátækragildrunni sem herjar á hverfi blökkumanna í Bandaríkjunum.

And I fear that what I’m sayin’ won’t be heard until I’m gone
But it’s all good, ’cause I really didn’t expect to live long
So, if it takes for me to suffer for my brother to see the light
Give me pain till I die, but, please, Lord, treat him right

Heimildir

BETNetworks (2020). Ruff Ryders Chronicles. Youtube

Hinton, Elizabeth. (2015). Creating Crime: The Rise and Impact of National Juvenile Delinquency Programs in Black Urban Neighborhoods. Journal of Urban History (41) 5. 808–824

Livingston, J.N. og Nahimana, C. (2006). Problem Child or Problem Context: An Ecological Approach to Young Black Males. Reclaming Children and Youth(14) 4. 209–214.

--

--

Haukur Leifsson

hef skrifað um áfengi fyrir Vinotek.is og bullað á hinum ýmsu síðum síðustu 20 ár. Finnst gott að súpa.