Menabò Vino e Cucina

Haukur Leifsson
3 min readOct 13, 2023

--

Centocelle í Róm. Á meðan sveittir túristar eltast við skugga við spænsku tröppurnar gengur lífið í Centocelle sinn vanagang. Þetta er önnur Róm, eiginlega hin sanna Róm, laus við ferðamenn og staður þar sem fólk virðist nærast á samneyti við annað fólk. Lifandi hverfi sem þegar skugga tekur á heitu sumarkvöldi fyllist af mannlífi. Opið er út á svalir í flestum húsum, börn leika sér á götum úti og fjölmennt er á körfuboltavelli hverfisins. Það er sumar í Centocelle.

Veitingastaðurinn Menábo er skilgreiningin á það sem hægt er að kalla sérkennilegan veitingastað. Tveir bræður sjá um staðinn, annar velur vínin og hinn eldar matinn. Staðurinn einblínir mjög á náttúru- og bíódýnamísk vín frá litlum framleiðendum en stoltur Daniele segir mér að þetta er ekki vínbar heldur matstaður, þrátt fyrir að vínin sem prýða alla veggi á staðnum eigi hug hans allan. Daniele sérvelur vínin og hér er að finna fágæt vín sem erfitt er að nálgast.

Staðurinn er mjög lítill, svo lítill að tilfinningin er meira að vera mættur í skemmtilegt matarboð í stað þess að vera úti að borða. Daniele á auðvelt með að gleyma sér í spjalli enda stoltur maður sem nálgast þjónustuna á þann hátt að hann sé að bjóða fólk velkomið á eigið heimili enda hefur Menabó persónulegan brag á sér.

Maturinn er rómverskur, rómverskur á þann hátt að hér er eldaður heimilismatur en útfærður af sem meistaraverk af fágun og nærgætni í eldamennsku. Borin er virðing fyrir hráefnum. Útfærsla sem skilaði staðnum nýlega á Michelin lista Rómar.

Það er gaman að sitja á Centacello með íbúum hverfisins en við hjónin erum svo heppin að vinafólk okkar býr í Centacello og stundar þennan stað af ákefð og áhuga.

Ferðalag um bragðlaukana hófst á Fegato alla Romana til Plin Pollo Peperoni til það sem á að heita eitt besta Carbonara í Róm og þaðan til Strengozzi guanciale, fichi e pecorino. Eða með öðrum orðum frá svínalifur til klassískra rómverskra pastarétta sem voru allt annað en klassískir á Menabó. Þrátt fyrir að mörg vín á seðli vöktu áhuga að þá fékk Daniele að mestu að ráða ferðinni. Frá litlum framleiðendum í Búrgúnd, Langbarðalandi og náttúruvínum frá Rúmeníu. Ekkert feilspor var stigið í pörun vín og matar.

Eftir vel eftirminnilega kvöldstund á Menábo var kvöldinu síðan lokið með fólki úr hverfinu á Gelateria Artigianale. Jafnvel þótt klukkan var að nálgast miðnætti sátu íbúar hverfisins úti og börnin léku sér ennþá úti.

Róm er ekki bara Róm. Utan slóða túrista leynast perlur. Menabò Vino e Cucina er ein slík.

--

--

Haukur Leifsson

hef skrifað um áfengi fyrir Vinotek.is og bullað á hinum ýmsu síðum síðustu 20 ár. Finnst gott að súpa.