Um ódýran bjór, aðskilnaðarstefnu og fasisma(*sigh*)

Haukur Leifsson
4 min readAug 12, 2021

--

Nú á dögunum ákvað Session Craft Bar að vekja athygli á sér með því að bjóða upp á Happy Hour tilboð fyrir þá gesti sem eru fullbólusettir. Þetta er ekki nýtt af nálinni í heimsfaraldrinum en nokkur brugghús í Bandaríkjunum hafa til að mynda bólusett fólk á staðnum og fyrir vikið gefið bjór. Session Craft Bar þekki ég ágætlega en ég réð báða eigendurna í vinnu á Mikkeller þegar hann var og hét og annan þekki ég úr forni fari úr skemmtanalífinu.

Session Craft Bar

Ákvörðun Session Craft Bar vakti upp hörð viðbrögð á Facebook síðu staðarins þar sem fólki skipti sér í tvö lið, þeir sem voru með bólusetningum og þeir sem voru gegn þeim. Nokkur ummæli stinga þó verulega í stúf, ekki vegna skilningsleysis á gagnsemi bólusetninga gegn sjúkdómum heldur einnig varpar ljósi á þau forréttindi að búa í samfélagi þar sem mótlæti er lítið sem ekkert.

Nokkur dæmi:

Mun aldrei versla við ykkur og hana nú. Djisus eru þið ekki að grínast! Aðskilnaðarstefnu styð ég aldrei. Skammist ykkar

Hef aldrei og mun aldrei versla við ykkur. Þið áttið ykkur á að allir skulu vera jafnir hérlendis er það ekki?

Það er fullt af fullbólusettu fólki sem myndi samt aldrei styðja svona fasískar aðgerðir. Eina sem þið hafið uppúr þessu er að útskúfa þann hóp, plús alla þá sem af einhverri ástæðu eru ekki bólusettir. Eitt er víst að ég mun aldrei versla við ykkur! Skammarlegt, þið ættuð að opna útibú í Ísrael næst.

Þetta er skýrt brot á jafnræðisreglunni, sú regla sem við íslendingar höfum alltaf stært okkur af og hún er vörðuð í stjórnarskránni, æðstu lögum íslensks réttarríkis… ef einhver myndi láta reyna á það fyrir dómi, yrði að dæma ykkur í órétti… óttalegir vitleysingar eru sumir. Ég mun ekki eiga viðskipti við svona fyrirtæki.

Hvaða viðbjóður eruð þið??? Þið eruð hreint og beint fasistar

Mundi aldrei versla við fyrirtæki sem styður aðskilnaðarstefnu

Undantekningalaust eru þessi ummæli frá hvítum Íslendingum á besta aldri. Það sem er áhugavert er að þrætuefnið er afsláttur (líklegast 200–300 krónur) á áfengum drykk á bar í Reykjavík. Öllum er frjálst að sækja staðinn nema hvað að hjólastólaaðgengi mætti vera mun betra en það er önnur saga.

Ísland er forréttindaþjóð. Hér höfum við hvorki þurft að þola fasisma né aðskilnaðarstefnu þótt réttilega margir íslendingar af erlendu bergi brotnu hafa mátt þola kynþáttafordóma og kynferðisglæpir eru plága ef marka má samfélagsumræðu í dag.

Aðskilnaðarstefna er fyrst og fremst kynþáttamisrétti en á einnig við um mismununun eftir kyni, kynhneigingu eða fötlun. Hún á ekkert skylt við hvort fólk eigi “rétt” á afslátt af bjór eða ekki. Aðskilnaðarstefna S-Afríku tók kosningarétt af blökkufólki og byggðist á því að einn kynþáttur væri æðri öðrum. Mótmæli voru bönnuð með lögum, menntun blökkufólks var verulega skert, hjónaband blökkufólks við hvítt fólk var bannað, blökkufólk var skyldað til að bera á sér vegabréf öllum stundum og svo má lengi telja (Ross, 1999). Heimurinn brást síðan ekki verulega við fyrr en Sharpeville fjöldamorðin áttu sér stað en árið 1960 myrti S-Afrísk lögregla um 249 blökkumenn vegna mótmæla, þar af 29 börn. (Reeves, e.d.). Einnig mætti telja fram aðskilnaðarstefnu og kerfisbundin kynþáttamismun Bandaríkjanna þar til dagsins í dag sem rökstuðning gegn því að hvítir einstaklingar á Íslandi noti orðið “aðskilnaðarstefna” yfir afslátt á áfengum drykk.

Fasismi er vítt hugtak og á sér enga eina rétta skilgreingu þótt við tengjum orðið við öfgastefnu stjórnvalda, kúgun minnihlutahópa og einræðisstjórnir. Fasismi er samofinn stjórnarháttum Hitlers og Mussolini á tímum seinni heimstyrjaldar en á einnig við um kerfinsbundna kúgun og ógnartilburði yfirvalda (Paxton, 2004).

Réttur einstaklinga á Íslandi er mikill. Einstaklingar hafa rétt til þess að neita bólusetningu á eigin forsendum en fjöldabólusetningar vekja upp ýmis félagslegar og siðferðislegar spurningar. Að ná upp hjarðónæmi gegn veiru stuðlar hins vegar að almannagæðum. Hægt er að skilgreina þá sem bólusetja sig ekki sem “free riders” í samfélagslegri umgjörð sem þátttaka þeirra sem bólusetja sig hafa skapað. Að “free ride-a” er þekkt í hinum vestræna heimi og einkennir oft fólk með mikil forréttindi. Hins vegar eru þeir sem neita bólusetningum ekki allir í þeim flokki en margir neita bólusetningum vegna aðstæðna, heilsufars eða skort á upplýsingum. Einnig má telja upp fólk sem hefur ekki skilning á lýðheilsu, hjarðónæmi eða læknavísindum (Navin, 2013).

Það er óumdeilanlegt að þeir sem kjósa að bólusetja ekki sig eru í hættu að smita aðra. Þetta á ekki bara við þá bólusetningu sem á sér stað í dag heldur einnig gegn öðrum vírusum sem bólusett hefur verið gegn í gegnum tíðina. Það er samfélagsleg ábyrgð að vernda viðkvæma hópa og að koma í veg fyrir skaða annarrar manneskju vegna eigin vanrækslu eða hirðuleysi. (Navin, 2013).

Heimildir

Free Beer! Breweries Pitch in to promote vaccinations. https://brewingindustryguide.com/free-beer-breweries-pitch-in-to-promote-vaccinations/

Marks, S. og Trapido, S. (1989). South Africa since 1976: An Historical Perspective. Birtist í South Africa: No Turning Back [rafræn útgáfa].Í Johnson, S (ritstjóri) (bls. 1–52). David Davies Memorial Institute og International Studies. Great Britain

Navin, M. (2013). Resisting moral permissiveness about vaccine refusal. Public affairs quarterly , 27 (1), 69–85

Paxton, Robert O. 2004. The Anatomy of Fascism. 1. útg. New York: Vingate Books, A Division of Random House, Inc.

Reeves, A. (e.d.). The Sharpeville Massacre — A watershed in South Africa.

Ross, R. (1999). A Concise History of South Africa. Cambridge University Press. United Kingdom

--

--

Haukur Leifsson

hef skrifað um áfengi fyrir Vinotek.is og bullað á hinum ýmsu síðum síðustu 20 ár. Finnst gott að súpa.