Áfengisfrumvörp, bjórinn og hið meinta frelsi

Haukur Leifsson
24 min readMay 25, 2021

--

Í Bandaríkjunum tíðkast að taka með sér bjór heim í umbúðum (growlers) sem hægt er að endurnýta

Áfengisfrumvörp eru mér hugleikin og nú þessa dagana er umræða um frelsi í áfengissölu áberandi, einkum vegna þess frumvarps Áslaugar Örnu að leyfa brugghúsum að selja vöru sína án milli aðkomu ríkis og einnig að leyfa vefverslun á Íslandi. Sem fyrr er frumvarpið umdeilt og sem fyrr hefur umræðan farið langt út fyrir það sem frumvarpið stendur fyrir.

En hvað er einkasala ríkis á áfengi og til hvers er hún rekin? Hver er stefna Íslands í áfengismálum og hver er forsaga þessa máls?

Áfengisbann

Til að skilja stöðuna í dag þurfum við að rifja upp áfengisbannið á Íslandi en á Íslandi var bann sett á allt áfengi árið 1915. Það bann varði til ársins 1922 þegar sala og innflutningar á víni frá Spáni var gerð leyfileg en einungis til að styðja við viðskipti á fiskafla til Spánar. Sú einokun varði til ársins 1935 þegar allt annað áfengi nema bjór var leyft en þó var bjór leyfður ef hann væri undir 2.25% áfengismagni. Sá bjór var í daglegu tali nefnt léttöl (e. light beer) en pilsner nafnið var einnig viðloðandi við bjór með þennan styrkleika og var léttöl í samfélagslegu samhengi ekkert nema óáfengur drykkur í augum íslendinga (Helgi Gunnlaugsson, 2017).

Til að skilja ástæður áfengisbannsins verður að skoða sögu einokunarverslunar á áfengi á Íslandi. Bann á áfengi á Ísland á sér djúpar rætur og uppruna í templarastúkum (e. temperance movement). Hugmyndin um templarastúkur á Íslandi kom upprunalega frá íslendingum sem búið höfðu í Kaupmannahöfn í kringum árið 1840. Árið 1884 var fyrsta templarastúkan stofnuð á Íslandi og var samtvinnuð íslenskum stjórnmálum sem kröfuðst sjálfstæðis frá Danmörku. Templarastúkurnar þrýstu snemma á skattlagninu á áfengi og þeim tókst snemma að koma á hreyfingu sem var gegn áfengi. Ástæður þess má rekja til þess hversu samtvinnuð hreyfingin var stjórnmálum. Áhrif hreyfingarinnar gætti svo í kosningum 1908 sem varð til þess að áfengisbann var sett á Íslandi og með því varð Ísland fyrsta ríki Evrópu til að setja á áfengisbann en Rússar og Finnar fylgdu fljótlega í kjölfarið (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999). Ísland varð þó ekki áfengislaust fyrr en 1915 þar sem birgjar fengu tækifæri til að selja vörur sem þeir áttu á lager. Á árunum 1908 til 1915 var áfengisneysla talsverð en yfirvöld töldu það vera að hluta til vegna heimabruggs (Gallagher og Gunnlaugsson, 1986).

Algjört áfengisbann á Íslandi dugði einungis í sjö ár en efnahagslegur þrýstingur frá Spáni varð þess valdandi að Ísland fór að flytja in vín frá Spáni í vöruskiptum fyrir íslenskan fisk. Árið 1928 ákváðu síðan stjórnvöld að kjósa líkt og var gert 1908 um áfengisbann og fimm árum síðar var áfengisbann afnumið nema bjór var ekki leyfður. Bjórinn fékk samt ákveðinn hljómgrunn áður en áfengisbannið var afnumið til að stemma stigu við skaðsemi heimabruggs og einnig til að styðja íslenskan efnahag með því að brugga bjór á hérlendis en andstaðan við bjórinn var of sterk. Helgi Gunnlaugsson og Gallagher (1986) nefna til dæmis að landlæknir var á móti bjór vegna þess hversu vinnufólk og börn væru berskjölduð fyrir skaðsemi bjórs þar sem hann væri tiltölulega ódýr í samanburði við annað áfengi. Þessar skoðanir fengu hljómgrunn innan þingsins og varð að samhljómi næstu áratugi (Gallagher og Gunnlaugsson, 1986). Mikil andstaða við bjór var einkennandi eftir áfengisbannið. Samkvæmt Hildigunni Ólafsdóttur (1999) þá var sterkt áfengi megin einkenni drykkjumenningar íslendinga. Bjór var engu að síður viðloðandi íslenskt samfélag. Bjór var algengur smyglvarningur og eitthvað var um heimabrugg. Bjór var einnig aðgengilegur íslenskum áhöfnum í skipum og flugvélum og gátu flugáhafnir til dæmis keypt bjór til einkaneyslu í fríhöfninni á flugstöðinni í Keflavík á leið inn í landið. Árið 1979 reyndi viðskiptamaðurinn Davíð Scheving Thorsteinsson að kaupa kassa af bjór í fríhöfninni líkt og áhafnarmeðlimir flugfélagana á þeim grundvelli að það væri brot á stjórnarskrá að neita fólki um viðskipti á grunni atvinnu. Bjórinn var handlagður af tollayfirvöldum og Davíð kærði athæfið í kjölfarið. Mál hans endaði samt ekki í dómskerfinu þar sem þáverandi fjármálaráðherra greip inn í og takmörkuð sala áfengis í fríhöfninni varð leyfð til allra sem voru á leið inn í landið. Með því varð bjórdrykkja ákveðið norm meðal þeirra sem ferðuðust oft og einskorðaðist það helst við efri stéttir þjóðfélagsins (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999).

Frá því að bjórsala varð gerð lögleg í fríhöfninni þá jókst stuðningur við að afnema bjórbannið innanlands. Nokkur frumvörp litu dagsins ljós en öllum var hafnað. Ólíkt öðrum þjóðum norðurlanda að þá voru engar flokkslínur þegar kom að stuðningi við áfengissölu. Á haustmánuðum 1988 fór frumvarp fyrir þingið sem átti að breyta áfengismenningu íslendinga. Neysla á sterku áfengi var vandamál og það þurfti að stemma stigu við það. Einnig þurfti að breyta drykkjumynstri, efla innlenda framleiðslu og skapa tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta frumvarp varð að lögum og varð til þess að bjórbanninu var aflétt 1. mars 1989 og batt þar með enda á áfengisbann á Íslandi (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999).

Það sem aflétting bjórbannsins hafði í för með sér var aukin neysla á áfengi á árinu 1989 í samanburði við árið á undan en neysla fór úr 3.39 lítrum á mann í 4.13 lítra. Hins vegar dróst sala saman árin á eftir og árið 1993 var heildarneysla sú sama og á árinu á undan afléttingu bjórbannsins. Bjór varð ákaflega vinsæll drykkur þegar banninu var aflétt en bjórneysla minnkaði á árunum þar á eftir. Utanaðkomandi þættir hafa áhrif eins og efnahagslægð og minnkandi kaupgeta almennings í kjölfar efnahagslægðar þar sem áfengi var talin vera munaðarvara. Þegar efnahagur náði sér á skrið á ný skilaði það sér í aukinni kaupgetu sem varð til þess að áfengi var vinsælla. Árið 1998 var áfengisneysla komin í 4.5 lítra á mann. Þegar bjórinn var leyfður tóku veitingastaðir og krár við sér og urðu vinsælli en áður sem skilaði sér í því að bjórinn varð vinsæll meðal ungmenna sem voru fastagestir á krám og áberandi í skemmtanalífi. Innlagnir á spítala vegna áfengisneyslu jukust eftir afléttingu en tíðni skorpulifurs minnkaði. Það eru því fleiri þættir heldur en aðgengi sem skila sér inn í neyslumynstur Íslendinga eftir bjórbannið og eins vega efnahagslegir þættir þar stórt (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999).

Einkasala áfengis í öðrum vestrænum löndum

Í Bandaríkjunum er flókið söluferli áfengis. Þrátt fyrir að í langflestum tilfellum sé hægt að kaupa áfengi í næsta stórmarkaðri að þá halda sum ríki ennþá einhverri stjórn yfir áfengissölu. Hins vegar hafa mörk ríki Bandaríkjana einhverja stjórn yfir áfengissölu þrátt fyrir að verslanir sem selja allar tegundir áfengis hafi verið lagðar niður. Bandaríkjamenn tala um „stjórnuð ríki“ (e. control states) og „leyfis ríki“ (e. license states). Í sautján ríkjum Bandaríkjanna þarf ríkið að samþykkja hvaða áfengistegundir eru seldar og í nokkrum ríkjum selur ríkið einungis sterkt áfengi og eru það kölluð „stjórnuð ríki“ en „leyfis ríki“ eru ríki þar sem einkaaðilar framleiða og selja áfengi með leyfi frá stjórnvöldum (Sanders, 2019).

Tilraunir Bandaríkjamanna á ríkisrekinni áfengisverslun og stjórn yfir áfengissölu eiga rætur að rekja til áfengisbannsins (e. prohibition) á árunum 1920–1933. Árið 1919 var bann á sölu og framleiðslu áfengis sem var yfir 0.5% í Bandaríkjunum. Með þeim lagðist af framleiðsla á víni, sterku áfengi og bjór. Áfengisbannið, svipað eins og á Norðurlöndum var pólitísk afurð templara til að útrýma áfengisdrykkju en í Bandaríkjunum var Anti-Saloon League fyrirferðamikil samtök í anda stúku- og templarahreyfinga Norðurlanda. Takmarkið var að útrýma samfélagsvandamálum tengdum áfengisdrykkju eins og veikindum, glæpum, fjarveru frá vinnu og óhóflegrar peningaeyðslu í áfenga drykki. Ýmsir vankantar voru á útfærslunni þar sem gefinn var frestur sem veitti fólki tækifæri til að birgja sig upp af áfengi en einnig var leyfi fyrir áfengisnotkun til einkanota í formi læknisaðstoðar eða heimabruggs. Einnig var lítil samheldni meðal ríkja Bandaríkjanna sem varð þess valdandi að nokkur ríki urðu aldrei laus við áfengi (Hall, 2010).

Eitt af því sem áfengisbannið átti að gera var að minnka glæpatíðni en erfitt hefur verið fyrir Bandaríkin að festa mat á hvort það hafi tekist. Tölfræði glæpa á árum áfengisbannsins var ábótavant og svartur áfengis markaður í borgum eins og Chicago og New York skapaði mikil samfélagsvandamál í formi spillingar og glæpa. Áfengisbanninu tókst í fyrstu að stemma stigu við áfengisneyslu og vandamál tengdum henni en það var skammvinnur sigur þar sem svartur markaður blómstraði og fólk gat farið á milli ríkja og landa með áfengi. Að minnka áfengisneyslu á þessum tíma skapaði ný vandamál eins og spillingu, minnkað traust gegn valdstjórninni og einnig fjölda glæpa tengdum sköttum (Hall, 2010).

Áfengi og samfélagsvandamál

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (e. World Health Organization) hefur áfengi alvarlegar afleiðingar á heilbrigðis- og hagkerfi í heiminum. Á hverju ári má reka þrjár milljónir dánarorsaka til áfengisneyslu og er heilbrigðisvandamál tengd áfengi eru 5% af heilbrigðisvandamálum heimsins. Áfengisneysla er í fyrsta sæti yfir orsakir vegna ótímabærs dauðdaga og 10% dánarorsaka í aldurshópnum 15–49 ára má rekja til áfengisneyslu (World Health Organization, e.d.)

Áfengisneyslu fylgja samfélagsleg vandamál sem rekja má til þeirra sem drekka áfengi. Ábyrgð einstaklinga er mikil og hvenær og hvar á að drekka áfengi er undir einstaklingum komið. Það er margt í samfélaginu sem krefst þess að fólk sé ekki undir áhrifum áfengis, eins og að keyra bíl eða sjá um börn, fólk á að geta átt samskipti án þess að vera árásargjarnt og tilefnislausir ofbeldisglæpur eiga að vera sjaldgæfir. Áfengi er getur haft áhrif á þessi atriði og eru byrðir einstaklingins miklar þegar kemur að þessum málum. Samfélagið hefur búið til ákveðið norm þar sem fólk sem drekkur er skipt í tvo hluta, þeir sem sem drekka eðlilega (e. normal drinkers) án þess að hafa ytri áhrif og þeirra sem geta það ekki sem eru stimplaðir áfengissjúkir (e. alcoholics) (Room, 1997).

Áfengissýki varð fyrst vart á nítjándu öld en eftir iðnbyltingu varð sterkt áfengi vinsælt og á átjándu öld olli það faraldri án þess að talað væri um sjúkdóm. Við hnignun templarahreyfinga og meiri áfengisneyslu eftir bannár í mörgum löndum varð hugmyndin um áfengissýki sem sjúkdóm algeng sem var þess valdandi að á síðustu öld fóru þjóðir að veita málaflokknum athygli á þá leið að áfengissjúkir einstaklingar væru sjúklingar sem þyrftu á meðhöndlun á að halda. Það var þess valdandi að hjálparstamtök eins og AA (e. Alcaholics Anonymous) litu dagsins ljós og urðu áberandi á heimsvísu. Hjálparsamtök eins og AA aðstoða einstaklinga við fíkn sinni en einblína ekki á samfélögin sem heild, öfugt miðað við templarahreyfingarnar (Room, 1997).

Verðstjórnun á áfengi

Á Íslandi er áfengi skattlagt í formi áfengisgjalds. Áfengi er sá vökvi sem er yfir 2.25% vínanda að rúmmáli og eru gjaldskyldir samkvæmt lögum um áfengisgjald allir þeir sem flytja inn eða framleiða áfengi til sölu eða vinnslu. Áfengisgjald er reiknað hlutfallslega á brot af sentilítra af vínanda og brot af sentilítra vökva hins áfenga drykkjar (lög um gjald af áfengi og tóbaki nr. 96/1995).

Íslenskir neytendur búa við hæstu áfengisskatta Evrópu. Ef miðað er við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands 2020 tekur íslenska ríkið til sín 94.1% af útsöluverði vodkaflösku og 77.8% af verði bjórdósar. Í útsöluverði áfengis þarf líka að greiða virðisaukaskatt, skilagjald af umbúðum og einnig reiknast álagning til ÁTVR. Í tilkynningu Félags Atvinnurekanda um hækkað áfengisgjald 2020 segir

Þessi skattlagning er löngu komin út fyrir öll skynsemismörk og full ástæða til að vekja athygli á þessum ótrúlegu tölum. Áfengisgjaldið bitnast harðast á þeim sem minnst hafa á milli handana þar sem það leggst af meiri þunga á ódýrari áfenga drykki en þá dýrari. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða þetta kerfi.

Áfengisgjald er algeng aðferð ríkja til að stýra neyslu á áfengi, reyna að bæta lýðheilsu og koma á verðstýringu á áfengi. Samkvæmt Hildigunni Ólafsdóttur (2007) hefur áfengissköttum oft verið líkt við mengunarskatta þar sem þeim er beitt til að standa straum af félagslegum kostnaði. Hins vegar hafa tekjur af áfengissköttum í þróuðum löndum verið meira í formi virðisaukaskatts og tekjuskatts en í fátækum löndum hafa meiri tekjur verið af beinum áfengissköttum. Verð á áfengi fylgir ekki verðlagsþróun og í mörgum tilfellum skila áfengisskattar minni tekjum þar sem auðvelt er að kaupa áfengi í nágrannalöndum (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2007).

Verðbreytingar á áfengi hafa mest áhrif á þá sem drekka mest en einnig á ungt fólk. Verðhækkanir eru þess valdandi að ungt fólk er líklegra til að drekka minna. Tengsl eru á milli verðhækkana og hversu ölvað fólk sem drekkur verður. Sloan og fleiri (1995) gerðu rannsókn í Bandaríkjunum sem sem sýndi fram á að 10% hækkun á áfengi myndi hafa í för með sér 8% lækkun á skiptum þar sem einstaklingar drekka sig til verulegrar ölvunar (sem var skilgreint sem fleiri en fimm drykkir) (Sloan og fl., 1995).

Verðbreytingar og verðstjórnun á áfengi tekur einnig tillit til þess að í eðli sínu er áfengi ekki eðlileg neysluvara sökum þess að áfengi er ávanabindandi efni. Þeir sem ánetjast ávanabindandi efnum eru líklegri til að vilja meira af þeim. Með því að hækka verð er hægt að stuðla að því að þeir sem eru búnir að ánetjast áfengi kaupi minna af því. Með því að kaupa minna af áfengi er einnig hægt að minnka hættuna sem ölvunarakstur skapar og þá sérstaklega hjá ungum neytendum. Hækkanir minnka einnig tíðni skorpulifurs og verðhækkanir á áfengistegundum eins og bjór hafa minnkað tíðni nauðgana og nytjastulda (Anderson og Baumberg, 2006).

Áfengismenning

Samkvæmt Gordon og fleirum (2012) er orðið áfengismenning opið til túlkunar og samanstendur af mörgum mismunandi þáttum sem eru ólíkir eftir samfélögum og löndum. Heimildir um áfengisnotkun eru að mestu leyti um heilsufarslegar og samfélagslegar afleiðingar áfengisneyslu og rannsóknir á áfengisneyslu sem hlut af menningu eða hvað veldur áfengisneyslu hefur ekki verið mikið rannsakað (Savic og fleiri, 2016).

Með áfengismenningu er átt við þau félagslegu norm og mynstur sem eiga sér stað við áfengisneyslu. Félagsleg norm geta stuðlað að áfengisneyslu þar sem áfengisneysla getur verið samofin viðurkenndu félagslegu athæfi í mismunandi samfélögum. Áfengismenning er einnig síbreytileg og eru mismunandi eftir stað og stund. Það getur til dæmis verið mismunandi eftir menningu hvenær sólarhrings eða á hvaða dögum sé samfélagslega leyfilegt að neyta áfengis (Savic og fleiri, 2016).

Innan áfengismenningar eru einnig staðir til að neyta áfengis. Það getur til dæmis verið stórir barir helgaðir bjórneyslu eins og þekkist í Þýskalandi og Austurríki en einnig litlir vínbarir þar sem vín er drukkið með smáréttum sem einkennist meira við suður Evrópu (Savic og fleiri, 2016). Því getur verið menningarlegur munur á neyslu áfengis þar sem neysla á víni í Suður Evrópu er líklegri til að vera hógflegri en þó oftar í viku en bjór neysla á norðlægum slóðum. Í norðlægum löndum í Evrópu er áfengisneysla meiri um helgar í samanburði við suður Evrópu en er í miklum mæli bundin við bjór. Í rannsókn Makela og fleiri (2006) var áfengisneysla í Evrópu skoðuð í samhengi við bæð drykkjarmynstur og kynbundna neyslu áfengis. Í Frakklandi og Sviss var neysla á víni algengust en bjór algengara áfengi í flestum öðrum Evrópulöndum. Norðlæg lönd voru hliðhollust bjórnum og þá Finnland sérstaklega en þar er leyfilegt að kaupa bjór með allt að 4.7% áfengismagni í matverslunum. Þegar kynbundin neysla var skoðuð kom í ljós að lítill munur var á vínneyslu á milli karla og kvenna en karlar drukku bjór í meira magni en konur. Bara í Frakklandi drukku karlar mun meira vín en konur. Neysla á sterku áfengi var aðallega bundin við karlmenn (Makela og fleiri, 2006).

Áfengismenning getur haft neikvæðar afleiðingar eins og að breyta félagslegum normum þegar kemur að áfengisneyslu og að vera undir áhrifum áfengis á almannafæri. Í rannsókn Demant og Krarup (2013) á drykkjuvenjum dana kom í ljós að 40% dana telja það vera ásættanlegt að drekka sig til ölvunar í stað þess að nema staðar við hófdrykkju. Með því er hægt að draga þá ályktun að búið sé að normalisera óhóflega drykkju (e. binge drinking) í Danmörku að því leyti að það er samfélagslega ásættanlegt að vera ölvaður. Hjá dönskum ungmennum er óhóflega drykkja merki um að hafa öðlast frelsi frá foreldrahúsum. Óhófleg drykkja er hluti af hópamyndunum og skemmtunum á meðan að þeir sem drekka ekki eru stimplaðir andfélagslegir (Demant og Krarup, 2013). Í Bandaríkjunum finnast einnig félagsleg norm þar sem óhófleg áfengisdrykkja þykir eðlileg en á hverju vori flykkjast bandarísk ungmenni í svokallað „Spring Break“ sem er bundið við páskafrí í háskólum. Þá er haldið í hópum í suðlæg ríki eins og Flórída þar sem óhófleg dagdrykkja er talin eðlilegur hluti af fríinu. Í rannsókn Smeaton og fleiri (1998) kom í ljós að allt að 18 drykkir á dag hjá körlum og 10 drykkir hjá konum væri eðlilegur hluti í fríinu (Smeaton og fleiri, 1998).

Aflétting ríkiseinokunar: reynsla

Í grein Hildigunnar Ólafsdóttur (2007) um afnám einkasölu ríkis á áfengi er teknar saman afleiðingar á afnámi einkasölu áfengis eftir löndum. Ný áfengislög tóku gildi í Finnlandi 1969 þar sem sala á bjór að 4.7% áfengismagni var leyfð í matverslunum ásamt því að í dreifbýli voru opnaðar áfengisútsölur en áfengisverslanir voru áður en lögin tóku gildi bannaðar í dreifbýli. Nokkrir veitingastaðir í dreifbýli höfðu áfengisleyfi. Eftir lagabreytinguna urðu breytingar í neyslumynstri finna á þá leið að þeir sem drukku mest af áfengi juku neysluna og fór sala á bjór upp um 125% fyrsta árið eftir breytinguna. Í dreifbýli urðu breytingar á þá leið að ungmenni sem höfðu drukkið sterkt áfengi að staðaldri færðu sig yfir í bjórinn. Samfélagslegar afleiðingar eins og innlagnir á sjúkrahús urðu algengar en innlögnum fjölgaði til muna vegna auðveldara aðgengi að áfengi. Ber þar hæst geðsjúkdóma eins og geðraskana sem jukust um 110%, skorpulifur 20% aukning, áfengiseitranir 90% og alkóhólisma 70%. Aukið aðgengi að áfengi í Finnlandi hafði meiri heilsufarslegar afleiðingar á konur. Þar fjölgaði til dæmi innlagna vegna geðraskana sem mátti rekja til óhóflegrar áfengisneyslu um 130% (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2007).

Alberta í Kanada er gott dæmi um ríki þar sem áfengissala var flutt frá ríki til einkaaðila en á árunum 1974–1993 var það gert í áföngum. Það var þó gert með þeim formerkjum að áfengissala færðist ekki inn í matvöruverslanir heldur gat hver sem er stofnað áfengisverslun. Sala á bjór og víni stóð í stað en sala á sterku áfengi hækkaði örlítið eða um 12%. Eftir 1994 voru áfengisskattar gerðir flatir og eftirlit minnkaði. Útsölustöðum áfengis fjölgaði mjög fram yfir aldamót og það sem gerðist var að eftir 1997 jókst áfengisneysla til muna og áfengisneysla í Alberta er núna einna mest heilt yfir Kanada (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2007).

Washington ríki í Bandaríkjunum seldi lengi sterkt áfengi í einokunarverslunum ríkis og eftir atkvæðagreiðslu 2012 var sú sala lögð niður. Rannsókn Kerr og fleiri (2018) kom í ljós að það hafði í för með sér minni áfengisneyslu á sterkum drykkjum dróst saman en heildar áfengisneysla varð meiri eftir breytingu. Áfengisskattar voru hækkaðir til að stemma stigu við þær samfélagslegu afleiðingar sem hefðu getað orðið sem varð þess valdandi að færri keyptu sterkt áfengi en fleiri keyptu bjór, þar sem áfengisskattur fyrir bjór hafði lækkað. Það sem hafði einnig áhrif á áfengisneyslu eftir að ríkisreknar áfengisverslanir voru lagðar niður var að það var breyting á fíkniefnalöggjöf á þá leið að marijúana neysla jókst. Þeir sem voru fylgjandi breytingunni 2012 voru síðan óánægðir eftir breytinguna þar sem breytingin var þess valdandi að útsölustöðum fækkaði þvert á vonir þeirra sem voru fylgjandi breytingunni. Á endanum varð sterkt áfengi dýrara og erfiðara að nálgast það (Kerr og fleiri, 2018).

Pólland aflétti allri ríkiseinkasölu árið 1989. Ekkert eftirlit varð á áfengismarkaði og áfengisneysla jókst. Líkt og með Finnland jukust innglagnir á sjúkrahús til muna og dánartíðni hækkaði. Tekjur ríkis vegna einkavæðingar minnkuðu.

Svíþjóð

Þegar rætt er um breytingar á áfengislöggjöf og afleiðingar er Svíþjóð oft nefnt til sögunnar. Til að mynda vitnar Vínbúðin í skýrslu Stockwell og fleiri (2018) sem röksemdafærslu gegn einkavæðingu áfengisverslunar (Vínbúðin, e.d.).

Í Svíþjóð var bjór að styrkleika 4.5% seldur í 14.000 matvöruverslunum víðsvegar um landið á árunum 1965–1977 og fram til ársins 1972 var ekkert aldurstakmark á kaupum á bjór í matvöruverslunum eða þar til 18 ára aldurstakmark var sett sama ár. Aukin sala á bjór mældist ár frá áir á þessum tíma. Í nokkrum héruðum var gerð tilraun til að selja bjór allt að 5.6% áfengismagni ár árunum 1967 og 1968 en því var hætt í kjölfar vaxandi drykkju ungmenna. Á áttunda áratugnum glímdi Svíþjóð við mikinn vanda í formi unglingadrykkju þegar kom að bjórnum en 1977 var bjór helmingur alls áfengis sem unglingar drukku eða þar til sölu bjórs var hætt í matvöruverslunum sama ár. Eftir það dró úr unglingadrykkju og á endanum dróst drykkja saman og varð á endanum sú sama áður en bjórinn var leyfður í matvöruverslunum (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2007).

Svíþjóð náði talsverðum árangri í baráttu gegn misnotkun áfengis og þeim samfélagslegu og heilsufarslegu afleiðingum sem það getur haft í för með sér með tilfærslu bjórs til sænsku ríkisáfengisverslunarinnar. Dánartíðni ungs fólks hvað varðar áfengistengda sjúkdóma lækkaði og innlögnum á sjúkrahús vegna áfengistengdra sjúkdóma lækkaði einnig og slysum fækkaði einnig (Ramstedt, 2002).

Talsverð umræða hefur verið í Svíþjóð um afleiðingar á afnámi einkasölu ríkisins á áfengi og nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar þess efnis. Tvær svipaðar skýrslur þess efnis eru veigamiklar, annars vegar skýrsla Holder og fleiri (2007) og hins vegar skýrsla Stockwell og fleiri (2018) en báðar skýrslur rannsaka sömu tvær útfærslur á afnámi einkasölu, í fyrsta lagi að áfengi sé einungis selt í sérverslunum með áfengi og hins vegar að áfengi sé selt í matvöruverslunum. Þess má geta að sama vísindafólk kemur að meirihluta að báðum skýrslunum. Í rannsókninni frá 2007 kemur fram að í fyrri valkosti myndi áfengisverslunum fjölga, tilfærslan myndi stuðla að meira vöruúrvali, verð myndi ekki breytast að ráði, opnunartími myndi lengjast og neysla myndi aukast um 5% vegna svigrúms til auglýsinga og tilboða. Seinni valkosturinn myndi leiða af sér að útsölustaðir áfengis yrðu um átta þúsund, vöruúrval væri minna en í ríkisáfengisverslunum, meðalverð myndi ekki breytast en gæði á ódýrustu tegundum áfengis gæti minnkað og stuðlað að 5% verðlækkun í þeim flokki, erfiðara væri að fylgja eftir lögum um innkaupaldur áfengis og matvöruverslanir myndu hugsanlega nota tekjur af öðrum vörum til að greiða niður verð á áfengi. Fyrri valkosturinn gæti aukið áfengisneyslu um 14% en seinni valkosturinn 29% (Holder og fleiri, 2007). Í skýrslu Stockwell og fleiri (2018) voru niðurstöður á þá leið að fyrri valkosturinn gæti aukið neyslu um 20% meðan seinni kosturinn myndi auka neyslu áfengis um rúm 31% ásamt verulegra samfélagsvandamála eins og 76% fjölgun dauðsfallra vegna áfengisneyslu og aukning ölvunaraksturs um tæp 57%.

Þess má geta að vefverslanir áfengis eru leyfilegar í Svíþjóð á grunvelli laga Evrópusambandsins en vegna sérstæðu njóta þær ekki mikilla vinsælda í samanburði við ríkisrekna einkasölu áfengis, Systembolaget sem býður nú upp á heimsendingu á áfengi einnig (The Local, 2019).

Ísland — tilraunir til að afnema ríkiseinokun og samanburður við Finnland

Á Íslandi hefur áfengisneysla aukist eftir efnahagshrunið 2007 en vænta má að ferðamenn séu hluti af tölfræði sem mælir áfengisneyslu. Sala á sterku áfengi hefur minnkað en neysla á léttvíni og bjór aukist og árið 2016 var bjór 57% af áfengissölu á Íslandi (Hagstofan, e.d.).

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðir á Íslandi til að afnema einkasölu ríkisins á áfengi að einhverju eða öllu leyti. Vilhjálmur Egilsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði tilraun árið 2001 með breytingar á lögum sem hefðu gefið matvöruverslunum frelsi til að selja áfengi en málið komst ekki lengra en í fyrstu umræðu. Guðlaugur Þór Þórðarsson flutti síðan frumvarp 2004 sem var á þá leið að bjór og léttvín undir 22% áfengismagni yrði gefin frjáls. Eftir fjórar tilraunir fór það ekki framhjá allsherjarnefnd. Árið 2007 lagði Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokks aftur fram frumvarp án árangurs eftir talsverða umræðu innan þingsins (Jóhann Óli Eiðsson, 2014). Árið 2014 leit svo frumvarp Vilhjálms Árnason þingmanns Sjálfstæðisflokks dagsins ljós sem hlaut mikla umræðu í samfélaginu en komst ekki lengra en fyrri frumvörp. Umræðan var þó á þá leið að tveir pólar tókust á, efnahagslegur annars vegar og lýðheilsa hins vegar. Frumvarpið var aftur lagt 2015 með breytingum en hafði lítinn árangur („Áfengisfrumvarp verði“ , 2015). 2017 var síðan enn gerð tilraun til afnám einkasölu á áfengi sem var stöðvað í allsherjarnefnd en frumvarpið mætti talsverðri andstöðu í þjóðfélaginu. Kaflaskipti urði árið 2019 þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lagði fram drög að frumvarpi til laga en með því frumvarpi var reynt að leyfa vefverslun innlendrar áfengisverslunar og reynt að leyfa innlendum framleiðsluaðilum að selja vöru sína („Dómsmálaráðherra kynnir“ , 2019).

Í Finnlandi voru gerðar breytingar á stjórnarskrá árið 2000 sem kallaði á breytingar á áfengislögum. Þrátt fyrir að breytingarnar voru kerfislegar að þá opnuðu breytingarnar samt á umræðu um að hvaða leyti þyrfti að breyta áfengissölu ríkisins. Í kjölfarið tókust á sömu pólar og höfðu gert á Íslandi, lýðheilsa annars vegar og efnahagur annars vegar. Nokkur frumvörp litu dagsins ljós og voru tekin fyrir í þinginu án árangurs, líkt og gerðist á Íslandi, fyrr en frumvarp um breytingar á áfengislögum árið 2018 voru samþykkt. Breytingarnar voru á þá leið að matvöruverslanir og smáverslanir máttu selja bjór upp að 5.5% áfengismagni, handverksbrugghús máttu selja út bjór að 12% áfengismagni og matvöruverslanir, opnunartími skemmtistaða var lengdur til kl. 04:00 að nóttu, sölutími ríkisverslana áfengis var framlengdur um klukkutíma á opnundardögum og veitingastaðir gátu sótt um leyfi til að selja bjór og áfengi út af staðnum sem væri undir 5.5% áfengismagni en breytingar voru gerðar á skattkerfi þess valdandi að hægt væri að fá tekjur til að vega upp á móti samfélagslegum afleiðingum þessara breytinga (Karlsson og fleiri, 2020).

Á Íslandi og í öðrum löndum þar sem breytingar á sölu áfengis hafa verið í umræðu að þá var spáð að þessi lagabreyting myndi hafa talsverðar samfélagslegar afleiðingar í formi aukinnar neyslu almennings. Árið áður en lögin tóku gildi drukku Finnar mikið af bjór, síder og tengdum drykkjum en sú neysla samanstóð af 60% neyslu Finna á áfengum drykkjum. Í grein Karlssons og fleiri (2020) kom fram að ári eftir lagabreytingar hafði heildarneysla aðeins aukist um 0.4%. Í því tilliti má nefna að samhliða aukins frelsi á áfengismarkaði að þá hækkaði áfengisskattur sem gæti útskýrt ákveðið jafnvægi fyrir og eftir lagabreytingar. Hins vegar er hægt að telja fram önnur utanaðkomandi atriði sem gæti haft áhrif, eins og marga góðviðris daga sumarið 2020 og áfengi sem var búið að flytja inn fyrir laga- og skattabreytingar 2018. Smábrugghús nutu góðs af breyingunum en sterkur bjór fór úr fimm hundruð þúsund lítrum í 1.7 milljón lítra. Sala jókst til muna í stórmörkuðum og sérverslunum sem var þess valdandi að árið 2019 seldi áfengisverslun finnska ríkisins einungis 30% af öllu seldu áfengi í Finnlandi það árið. Á síðasta ári hefur umræða í Finnlandi verið á þann veg að lögleiða „næsta skref“ sem er sala á léttvíni í matvöruverslunum (Karlsson og fleiri, 2020).

Rannsókn Linton og fleiri (2020) rannsakaði unglingadrykkju fyrir og eftir lagabreytingar. Skoðaðar voru drykkjuvenjur ungmenna á aldrinum 14–16 ára sem sýndu aukna neyslu ungmenna. 41% stúlkna drukku áfengi 2017 og tveimur árum síðar hafði sú tala hækkað í 45%. Hjá strákum fór neysla úr 39% í 43%. Athygli vakti að eina áfengistegundin sem aukning var á voru áfengis gosdrykkir (e. alcopops) sem voru eftir lagabreytingu fáanlegir í matvöruverslunum. Eftirliti eftir aldri var því ábótavant eftir lagabreytingar (Linton og fleiri, 2020).

Ísland — samanburður á áfengisneyslu

Samkvæmt evrópsku heilsufarsrannsókninni 2015 er áfengisneysla á Íslandi ekki mikil í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Árið 2015 var Ísland með sjöunda lægsta hlutfall af þeim sem drekka einu sinni í viku eða oftar eða rúmlega 20%. Það er lítið í samanburði við Danmörk, Belgíu og Bretland en í þeim löndum mælist hlutfall þeirra sem drekka einu sinni í viku eða oftar yfir 50%. Í samanburði við önnur Norðurlönd er Ísland með minnst hlutfall þeirra sem drekka einu sinni í viku eða oftar (Hagstofa Íslands, 2017).

Dagdrykkja á Íslandi er lítil í samanburði við önnur lönd í Evrópu en dagdrykkja mældist einungis 0.6% á Íslandi 2015. Í samanburði við Norðurlönd að þá er Ísland með minnstu dagdrykkjuna en Danmörk með mestu eða um 11%. Það er mikið í samanburði við hin Norðurlöndin þar sem dagdrykkja er rúmlega 2% í Noregi og tæplega 3% í Finnlandi og Svíþjóð (Hagstofa Íslands, 2017).

Líkt og með öðrum Norðurlöndum að þá er óhófleg drykkja vandamál á Íslandi. Í hverjum mánuði drekka rúmlega 20% óhóflega en aftur á móti aðeins einungis rúm 2% drekka óhóflega í hverri viku sem er undir meðaltali Evrópusambandsins (Hagstofa Íslands, 2017). Mest er um óhóflega drykkju í Danmörku en samkvæmt Demant og Krarup (2013) er normalisering óhóflegrar drykkju samfélagsvandamál í Danmörku (Demant og Krarup, 2013) Í samanburði við Norðurlönd er óhófleg áfengisneysla ekki vandamál í suðrænum ríkjum Evrópu (Hagstofa Ísland, 2017).

Niðurstöður evrópsku heilsufarsrannsóknarinnar haldast í hendur við sambærilegar kannanir hér á landi 2011 og 2014 á vegum Nordic Monitoring System sem Embætti Landlæknis stór fyrir gerð hér á landi. Niðurstaða þeirra var á þá leið að lægst tíðni áfengisneyslu á Norðurlöndum var á Íslandi og einnig lægsta ölvunardrykkjan á meðal Danir drukku oftast og óhófleg áfengisdrykkja var þá meira vandamál í Noregi en í Danmörku (Vínbúðin , e.d.).

Árangur Íslands í lágri tíðni áfengisneyslu mældist einnig í könnun ESPAD (The European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs) 2015 þar sem íslensk ungmenni neyttu minnst af áfengi á Norðurlöndum. Danir neyttu mest og var tíðni áfengiseitrana 32% þar á móti 3% hjá íslenskum ungmennum (Vínbúðin, e.d.).

Að lokum

Það er óumdeilanlegt að óhófleg áfengisneysla hefur slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks og hefur í för með sér talsverða samfélagslega byrði. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni er áfengisneysla í fyrsta sæti yfir orsakir ótímabærs dauðdaga og er byrði á heilbrigðiskerfi heimsins með því að vera 5% af öllum heibrigðisvandamálum heimsins (Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, e.d.). Áfengi getur leitt til áfengissýki sem hefur í för með sér hörmulegar félagslegar og einstaklingsbundnar afleiðingar. Ábyrgð einstaklinga þegar kemur að áfengisneyslu er því mikil og óljós mörk eru á milli þeirra samfélagslega norma sem skilgreina hófdrykkju fólk og áfengissjúka (Room, 1997).

Íslendingar bjuggu lengi við áfengisbann og var bjór bannaður lengi. Áfengi hefur lengi verið pólitískt og samfélagslegt umræðuefni allt frá áfengisbanninu og að afnámi einokunar á áfengisverslun ríkisins. Á bakvið áfengisbannið voru sterk áhrif frá templarastúkum og áhrifa þeirra gætti einnig þegar bjór var bannaður. Hugmyndir um skattlagningu komu einnig frá templarastúkum (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999).

Skattlagning og ríkiseinokun á áfengissölu eru tæki til að minnka skaðsemi áfengis á samfélagið. Það er óumdeilanlegt að það er kostur í ríkiseinokun á áfengissölu en einnig má finna dæmi þess efnis þar sem hún virðist litlu máli skipta hvað varðar neyslumynstur hverju sinni. Washington ríki eftir lagabreytingu 2012 er dæmi um breytingu þar sem óttast var að neysla á sterku áfengi myndi aukast eftir að salan var gerð frjálst en það sem gerðist var að hún dróst saman en neysla á öðrum áfengum drykkjum jókst (Kerr og fleiri, 2018). Þegar Finnar breyttu áfengislögum sínum árið 2018 varð það til þess að áfengisneysla stækkaðu óverulega og bölsýnisspár gengu ekki eftir. Áfengisneysla breyttist hvað varðar tegund af áfengi og nýjar tegundir urðu vinsælli eins og áfengis gosdrykkir. Þessi breytta neysla olli því engu að síður að eftirlit með aldri þegar áfengi var keypt í áfengisneyslu var ábótavant sem skilaði sér í aukinni unglinganeyslu. Finnar hefðu farið illa frá fyrri breytingum en þegar áfengislög breyttust 1969 á þá leið að bjór undir 4.7% skilaði sér í hillur stórmarkaða var það þess valdandi að áfengisneysla jókst til muna sem hafði slæmar samfélagslegar afleiðingar í för með sér eins og fjölgun geðsjúkdóma, áfengiseitrana og hærri tíðni alkóhólisma (Hildigunnur, Ólafsdóttir, 2007).

Það eru skýr dæmi um að verðlagning á áfengi dregur úr neyslu á sumum áfengistegundum og það virðist vera árangursríkari aðferð til að draga úr áfengisneyslu en að selja allt áfengi í ríkisverslunum. Einnig virðist vera samhengi á milli kaupgetu almennings og áfengisnotkunar og þá sérstaklega á Íslandi. Þrátt fyrir að áfengisneysla hafi verið mikil árið 1989 þegar bjórinn var leyfður í samanburði við árin á undan dróst hún saman á árunum eftir vegna efnahagsörðugleika á Íslandi og minnkandi kaupgetu almennings (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999). Því má álykta að það þættir tengdir verði á áfengi, skattlagninu, kaupgeta og efnahagur hverju sinni hafi áhrif á áfengisneyslu. Þess má geta að þegar þetta er skrifað hefur áfengisneysla í COVID-10 heimsfaraldrinum ekki verið rannsökuð en áhugavert væri að skoða hver staðan er eftir heimsfaraldur.

Það má því segja að það sé enginn samfélagslegur ávinningur af frjálsari sölu áfengis en þó má segja að ef að áfengissala væri frjálsari á Íslandi að þá væru áframhaldandi áfengisskattar árangursríkt tæki til að stemma stigu við samfélags- og heilbrigðisvandamála sem fylgja áfengisneyslu. Helstu áskoranir væru að takmarka unglinganeyslu þar sem reynslan frá Finnlandi sýnir að ef aldurstakmörk eru ekki virt að vettugi á útsölustöðum áfengis að þá geta skapast vandamál í formi unglingadrykkju. Hins vegar myndi það hjálpa smábrugghúsum til muna eins og tölur frá Finnlandi benda til en þar jókst áfengisneysla ekki að ráði eftir að smábrugghúsum og veitingastöðum var leyft að selja áfengi af staðnum en það var þess valdandi að smábrugghús seldu rúmlega þrefalt meira áfengismagn eftir að það varð leyfilagt. Sala í ríkisverslunum dróst saman og nýjar tegundir ruddu sér til rúms.

Vandamál tengd áfengisneyslu er hlutfallslega lægri á Íslandi en í öðrum löndum sem hafa tileinkað sér frjálslyndari aðferðir við sölu áfengis og á Íslandi mælast flestar tegundir áfengisneyslu hlutfallslega lágar miðað við önnur norræn lönd. Þættir eins og háir áfengisskattar hafa áhrif á neyslu almennings. Augljóslega þarf að vanda til verks þegar stigin eru skref í átt að frjálsari sölu áfengis með framangreind áhrif í forgrunni. Ekkert í þeim rannsóknum sem koma hér fram bendir til að það sé tímabært eða góð hugmynd að koma áfengi í matvöruverslanir. Þvert á móti sýna rannsóknir frá Finnlandi og Danmörku að það stórauki unglingadrykkju. Hins vegar má einnig taka þá umræðu hvort áframhaldandi ríkiseinokun á verslun áfengis á rétt á sér á meðan háir áfengisskattar eru gott tól gegn samfélagslegum- og lýðheilsulegum vandamálum sem fylgir áfengisneyslu og þá sérstaklega á sterku áfengi.

Hvað varðar vefverslanir má líta til reynslu Svía þar sem vefverslun áfengis hafði lítil áhrif á neyslumynstur Svía á áfengi.

Heimildir

Anderson, P. & Baumberg, B. (2006). Alcohol in Europe. A report for the European Commission. London: Institute of Alcohol Studies. Sótt af http://ec.europa.eu/healtheu/doc/alcoholineu_content_en.pdf

Áfengisfrumvarp verði lagt fram í haust. (2015) Viðskiptablaðið. Sótt af https://www.vb.is/frettir/afengisfrumvarp-verdi-lagt-fram-i-haust/118679/?q=Vilhj%C3%A1lmur%20%C3%81rnason

Demant, J. og Krarup, T.M. (2013). The structural configurations of alcohol in Denmark: Policy, culture and industry. Contemporary Drug Problems 40. 259–289.

Dómsmálaráðherra kynnir breytingu á áfengislögum. (2019). Morgunblaðið. Sótt af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/11/29/domsmalaradherra_kynnir_breytingu_a_afengislogum/

Félag Atvinnurekanda. (2020). Ríkið tekur 83% af verði léttvínskassans. Sótt af http://www.atvinnurekendur.is/frettir/rikid-tekur-83-af-verdi-lettvinskassans/

Gallagher, J.G. og Helgi Gunnlaugsson. (2010). Drug globalization: Eventual legalization of beer in Iceland and mariuhuana decriminalization in the USA. Journal of Scandinavian Studies in Criminilogy and Crime Prevention (2) 11. 119–134. doi: 10.1080/14043858.2010.523553

Gordon, R., Heim, D., og MacAskill, S. (2012). Rethinking drinking cultures: a review of drinking cultures and a reconstructed dimensional approach. Public Health 1 (126). 3–11. doi: 10.1016/j.puhe.2011.09.014

Hall, W. (2010) What are the policy lessons of National Alchohol Prohibition in the United States, 1920–1933? Addiction 7 (105). 1164–1173. doi: 10.1111/j.1360–0443.2010.02926.x

Hagstofa Íslands. (2017). Áfengisneysla hefur aukist um 73% milli áranna 1980 og 2016. Sótt af https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/afengisneysla/

Helgi Gunnlaugsson. (2017). Iceland´s peculiar beer ban, 1915–1989. Í Savona, E.U, Kleiman, M.A.R. og Calderoni, F. (ritstj.) Dual Markets: Comperative Approaches to Regulation. 237–248. doi:10.1007/978–3–319–65361–7

Hildigunnur Ólafsdóttir. (2007). Afnám einkasölu áfengis: yfirlit yfir rannsóknir á breytingum á áfengissölu. Stjórnmál og stjórnsýsla veftímarit (3) 2. 274–296.

Hildigunnur Ólafsdóttir. (1999). The entrance of beer into a persistence spirits culture. Contemporary Drug Problems 26. 545–575.

Jóhann Óli Eiðsson. (2015). Bitist um brennivín í búðir frá aldamótum. Vísir. Sótt af https://www.visir.is/g/20151614144d

Kerr, C.W., Williams, E., Subbaraman, M.S. og Greenfield, T.K. (2018). Survey estimates of changes in alcohol use patterns following the 2012 privatization of the Washington Liqour Monopoly. Alcohol and Alcoholism (53)4. 470–476. doi: 10.1093/alcalc/agy004

Lintonen, T., Ahtinen, S. og Konu, A. (2020). Alcaholic beverage preferences among teenagers in Finland before and after the 2018 alcohol law change. Nordic Studies ong Alcohol and Drugs. (37)2. 141–152. doi: 10.1177/14550725209I0547

Lög um gjald af áfengi og tóbaki nr. 96/1995

Makela, P., Gmel, G., Grittner, U., Kuendig., Kuntsche, S., Bloomfield, K., … Room, R. (2006). Alcohol & Alcoholism. 1 (41). 8–18. doi:10.1093/alcalc/agl071

Ramstedt, M. (2002). The repeal of medium-strength beer in grocery stores in Sweden — the impact on alcohol-related hospitalizations in different age groups. Í Room, R. (ritstj.), The Effects of Nordic Alcohol Policies. What Happens to Drinking and Harm When Alcohol Controls Change? Helsinki: NAD Publication №42.

Room, R. (1987). Alcohol Monopolies in the U.S.: Challenges and Opportunities. Journal of Public Health Policy 4 (8). 509–530.

Room, R. (2007). Alcohol, the individual and society: what history teaches us. Addiction 1 (92). 7–11. doi:10.1111/j.1360–0443.1997.tb03390.x

Rosenfeld, Adam. (2019). Booze to your doorstep? Sweden opens up alcohol home delivery to everyone. The Local. Sótt af https://www.thelocal.se/20190617/systembolaget-sweden-opens-up-alcohol-home-delivery-to-everyone/

Savic, M., Room, R.,Mugavin, J., Pennay, A. og Livingston, M. (2016). Defining „drinking culture“: a critical review of its meaning and connotation in social research on alcohol problems. Drugs: Education, Prevention and Policy 4 (23). 270–282. doi: 10.3109/09687637.206.1153602

Sloan F.A., Reilly B.A., og Schenzler C.M. (1994). Tort liability versus other approaches for deterring careless driving. International Review of Law and Economics 14. 53–71.

Smeaton, G.L., Josiam, B.M. og Dietrich, U.C. (1998). College students binge drinking at a beach-front destination during spring break. Journal of American College Health 6 (46). 247–254.

Stockwell, T., Sherk, A., Norström, T., Angus, C., Ramstedt, M., Andréasson, S. … Makela, P. (2018). Estimating the public health impact of disbanding a government alcohol monopoly: application of new methods to the case of Sweden. BMC Public Health 18. doi:10.1186/s12889–018–6312-x

Vínbúðin. (e.d.). Hvað ef einkasala yrrði lögð af í Svíþjóð Sótt af https://www.vinbudin.is/heim/um_atvr/samfelagsabyrgd-og-umhverfi/rannsoknir-og-greinar/hvad-ef-einkasala-yrdi-log%C3%B0-af-i-svithjod

Vínbúðin. (e.d.) Tíðni áfengisneyslu lægst á Íslandi. Sótt af https://www.vinbudin.is/heim/um_atvr/samfelagsabyrgd-og-umhverfi/rannsoknir-og-greinar/t%C3%AD%C3%B0ni-%C3%A1fengisneyslu-l%C3%A6gst-%C3%A1-%C3%ADslandi

Vínbúðin. (e.d.) Ísland stendur sig best allra Evrópuþjóða. Sótt af https://www.vinbudin.is/heim/um_atvr/samfelagsabyrgd-og-umhverfi/rannsoknir-og-greinar/island-stendur-sig-best-allra-evroputhjoda

World Health Organization, (e.d.). Harmful use of alcohol. Sótt af https://www.who.int/health-topics/alcohol#tab=tab_1

--

--

Haukur Leifsson

hef skrifað um áfengi fyrir Vinotek.is og bullað á hinum ýmsu síðum síðustu 20 ár. Finnst gott að súpa.