Þrjú hvítvín fyrir október

Haukur Leifsson
4 min readOct 9, 2021

--

Þar sem það eru nokkur ár liðin frá því að ég hef fjallað um vín eða bjór á efnislegan hátt að þá kemur hér hlutlaust mat á hvað mér finnst vera mjög góð vín til að prófa og fara smá út fyrir þægindaramma. Ólíkt öðrum umfjöllunum að þá er þetta bara persónulegt mat og er ekki byggt á þrýsting eða auglýsingjum frá birgjum. Lengi skrifaði ég um bjór og sterkt áfengi á vinotek.is en á síðustu árum hef ég hreinlega ekki fundið nægilega sterka hvatningu til að taka upp pennann aftur, ekki nema að fjalla um áfengismenningu í félagslegum skilning og gagnrýna einkonunarverslun ríkisins. En á síðustu árum hef ég hellt mér meira út í vín heldur en bjór en ég hef á síðustu 20 árum tekið nokkur þannig tímabil. Ég ætla því að halda úti smá vínumfjöllun á þessari síðu.

Byrjum á þremur nokkuð aðgengilegum vínum hér á landi sem rata ekki nægilega oft í innkaupakerru fólks.

Camille-Giroud Aligote 2018

Þrúgan Aligote er ekki sérlega þekkt hér á landi en hún er “litla” þrúgan í Búrgund. Í gegnum árin hefur Aligote verið tiltölulega lítils metin þrúga einfaldlega því hún fellur í skuggann af heimsklassa Chardonnay vínum í Búrgúnd. Yfirleitt eru Aligote vín frekar ódýr og heimamenn í Búrgíund setja þau oft í flokk borðvína. Hins vegar finnst þessi þrúga einnig í flokki premier cru vína en ein vínekra í Morey St. Denis gefur af sér Aligote vín í premier cru flokki.

Vín frá Camille-Giroud í Búrgúnd í Frakklandi eru að verða talsvert þekkt meðal vínáhugamanna hér á landi en Sante ehf flytur inn vínin. Camille-Giroud er rótgróið vínhús sem rekur sögu sína til ársins 1865. Vínhúsið var keypt árið 2001 af fjárfestingahópi undir leiðsögn Joe Wender og Ann Colgin frá Napa. Þau réðu ungan víngerðarmann, David Croix, sem umbylti framleiðsluaðferðum vínhússins þar til hann hætti árið 2016 og stofnaði sitt eigin vínhús, Domaine de Croix. Í dag nýtur Camille-Giroud gríðarlegar virðingar í vínheiminum.

Aligote vín eru yfirleitt þurr og er Camille-Giroud Aligote engin undantekning. Ferskir ávextir einkenna lykt, vínið er frekar létt en getur auðveldlega hentað með sjávarréttum eins og t.d. skelfisk en fer einnig tiltölulega létt með geitaost.

Verð 2900 kr Sante.is , mæli einnig með AMI Bourgogne Aligote sem hefur fengist hjá Rætur og Vín. Ekkert Aligote vín er fáanlegt í Vínbúðunum.

Diznoko Tokaji Dry Furmint 2019

Líkt og með Aligote að þá er Furmint þrúgan ekki mikið þekkt hér á landi. Oftast týnd seint og notuð í sætvínum en fyrirfinnst einnig í mjög þurrum og léttum hvítvínum. Furmint er ráðandi þrúga í Tokaj og er í sögulegu samhengi mjög gömul þrúga sem hefur verið notuð í víngerð í Ungverjalandi í margar aldir. Pipar og sítrús ávextir einkenna lykt og í einstaka tilfellum gefur vínið einnig af sér reykjar tóna.

Diznoko víngerðin er rótgróin vínrækt í Tokaj í Ungverjalandi, svæði sem er heimsþekkt fyrir Aszu sætvín. Ég hefði ekki gefið þessu víni gaum nema að það var tekið fyrir í þætti af podcastinu Kokkaflakk í Eyrun fyrr á þessu ári. Flott vín á mjög góðu verði. Verstaer að birgðir eru takmarkaðar og einskorðaðar við Kringluna.

Verð 2899 kr Vínbúðin (Kringlan).

Basserman Jordan Ruppertberger Reiterpfad Riesling 2019

Nú þegar farið er að hausta að þá mun ég líklegast drekka minna af Riesling en það má með sanni segja að sumarið sem var að líða var algjörlega sumarið sem ég drakk sem mest af Riesling. Því miður að þá einskorðast kunnátta og áhugi íslendinga við örfáar tegundir og yfirleitt hefur Riesling ekki verið mikils metið hér á landi. Íslendingar hafa tengt Riesling við frekar sæt vín og þykja ekki ýkja spennandi í augum leikmanna. En sannleikurinn um Riesling gæti ekki verið jafn fjarri því sem Íslendingar þekkja.

Í grunninn hefur Riesling lengi verið í gríðarlegu uppáhaldi vínáhugamanna og vínþjóna. Þurr Riesling (trocken) hefur verið á mikilli uppsveiflu en því miður hefur ekki fengist mikið af góðum Riesling vínum í þeim flokki hér á landi. Riesling sem þrúga er margbreytileg og getur verið hreint ótrúleg. Góð Riesling vín eru með gríðarlega mikla lykt sem getur minnt fólk á lime, anananas eða jafnvel apríkósur. Góður þurr Riesling er gríðarlega svalandi sem vín en passar einnig ótrúlega vel með grilluðum fiskréttum og aspas svo eitthvað sé nefnt.

Basserman Jordan er gamalt og afar virt vínhús frá Pfalz í Þýskalandi. Öll víngerð er lífræn og hefur tileinkað sér sjálfbærni í næstum áratug. Þessi Riesling er frá Reiterpfad vínekrunni í Ruppertsberg. Þetta er mjög bragðmikið vín, mikil ávaxtalykt sem ber keim af perum og ananas. Þurrt og sýrumikið. Dugar mjög vel eitt og sér og persónulega finnst mér það njóta sín best á þann hátt. Gríðarlega gott engu að síður með grilluðum fisk og getur vel tekið á sterka indverska rétti.

Verð 4198 kr Vínbúðin (Heiðrún).

--

--

Haukur Leifsson

hef skrifað um áfengi fyrir Vinotek.is og bullað á hinum ýmsu síðum síðustu 20 ár. Finnst gott að súpa.